mánudagur, nóvember 01, 2004

HÓ HÓ HÓ!!

Skotar eru geðveikir. Það eru svona tvær vikur síðan að búðirnar byrjuðu að setja upp jólaskreytingarnar og nú er komið stórt jólatré á eina af aðalgötunum...og ég sem hélt að við byrjuðum snemma heima á Íslandi. Sem betur fer erum við samt ekki byrjuð að spila jólalögin á kaffihúsinu, annars væri heilinn í mér bráðnaður löngu áður en ég kæmi heim...vonandi slepp ég með hálfbráðnaðan heila. Annars er allt gott að frétta héðan. Mér hefur, merkilegt nokk, ekki ennþá tekist að klúðra uppgjörinu í vinnunni þannig að ég held að allt sé bara í gúddí þar á bæ. Það var að byrja nýr strákur sem er geðveikt hress og spjallar rosalega mikið. Gallinn er bara sá að hann er frá Glasgow og er með alveg rosalegan, þykkan skoskan hreim þannig að ég skil ekki nema helminginn af því sem hann segir. Þannig að ég er búin að fullkomna hið svokallaða "nod and grin" sem er þannig að maður færir höfuðið hratt upp og niður á meðan maður reynir að láta munninn á sér ná utan um sitt hvort eyrað. Að vísu lætur þetta mig líta út eins og hálfvita en það er samt skárra en að vera sífellt að hvá...
Í gær var Hrekkjavaka, ég fór samt ekki í neinn búning, ég gerði soldið miklu skemmtilegra...ég fór á næturklúbb fyrir samkynhneigða. Það er nú nógu mikið fjör þar venjulega en á Halloween verður allt brjálað. Þetta er soldið svona eins og rave, nema að það er spiluð diskótónlist. Staðurinn er bara einn stór með pöllum meðfram veggjunum sem er hægt að dansa uppá. Og það var sko dansað! Endalaust af púkum, nornum og keðjusagamorðingjum nuddandi sér ögrandi upp við hvort annað. Þetta var eins og í bíómynd...mjög spes, og ég græddi djöflahorn og þrífork! Ekki slæmt!
Annars var ég að komast að því að hún Sibba úr MH er hérna með kærastanum sínum, þannig að ég ætla að fara að hitta hana á morgun, það verður örugglega gaman...annars verð ég að fara að finna mér einhverja Skota til að hanga með, mér gengur ekkert með hreiminn! Ég er nefninlega að vinna með svo mörgum útlendingum að ég kem heim með einhvern spænsk-pólsk-franskan hreim sem er eiginlega bara frekar asnalegur. Björg systir mín er að koma eftir 3 daga og ég hlakka geðveikt til. Við ætlum að fara og túrhestast eitthvað, ég hef ekkert gert af því, er bara búin að skoða verslanagöturnar ;) Ég er samt búin að kaupa nokkrar jólagjöfir sem er nokkuð gott verð ég að segja. Snemmbúna jólaæðið er greinilega smitandi...
Takk fyrir kommentin allir saman, gaman að heyra í ykkur, sérstaklega fólki sem ég heyri aldrei í eins og Betu. Allir að klappa fyrir Betu!!
En nú fer að styttast í að ég komi, bara tveir mánuðir eftir...vá


0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home