laugardagur, september 30, 2006

Jíhaaa!!!

Ég er komin með vinnu og því ekki lengur partur af dreggjum samfélagsins!

Eða þannig.

laugardagur, september 23, 2006

Drúsla hvað?

Loksins loksins eru bæði meðleigjendur og internetið komið heim. Munnurinn á mér hefur ekki fengið svona mikla æfingu í þrjár vikur og geðheilsan virðist vera nokkurn veginn i lagi. Það er að mikli leiti því að þakka að foreldrar mínir voru orðin svo áhyggjufull að þau ákváðu að senda mig eins og hvern annan vandræðaungling til ættingja í sveitinni. ´Nema það að sveitin heitir London. Þar var ég í fjóra daga og lenti í miklum ævintýrum m.a. rakst ég á þenna gaur:




Það var súrrealískt.

Svo fann ég vinnu en týndi henni aftur.

Það var undarlegt.

Eitur hefur verið keypt til að losna við óboðna gesti (pöddur sko, allir aðrir eru velkomnir)

Það er gott.

mánudagur, september 11, 2006

Æj þetta er nú ósköp ljúft ég sit á Kaffibars/Sirkus kaffihúsinu mínu (það eina með fríu neti), sötra kaffi, horfi út um gluggann á sólina og léttklædda fólkið úti og hlusta á einhvern kúnna spila djassútgáfu af Girl From Ipanema á píanóið. Ah lífið er ljúft...

Ég er hins vegar ekki komin með vinnu, undarlegir misskilningsreikningar hrúgast inn um lúguna sem ég get ekkert gert í af því að ég heiti ekki Andri, og það versta af öllu: Ég er ekki ein í íbúðinni. Onei ég hef mér til ánægju og yndisauka fullt af pöddum sem félagsskap. Því miður þá hata ég pöddur út af lífinu og hræðist þær meira en margt annað. Sem veldur því að ég læðist um heima hjá mér og kveiki öll ljós áður en ég þori að stíga inn í herbergin (ég held að þetta séu silfurskottur) og um daginn eyddi ég heilu kvöldi sitjandi í gluggakistunni vegna þess að ég sá eitthvað risastórt ógeð detta af stólarmi niður á gólf. Leigusalinn segir að meindýraeyðir sé á leiðinni en hér í landi skriffinskunnar tekur það örugglega þrjár vikur!! Argh!

Það á líka eftir að koma í ljós hvort einveran hafi einhver langvarandi áhrif á geðheilsu mína. Ég er farin að tala ansi mikið við sjálfa mig, en mér finnst ég skemmtileg þannig að það er allt í lagi, en ég er ekki enn farin að safna hári úr vaskinum og búa til brúður til að sitja með mér við kvöldmatarborðið...hmmm hugmynd.

þriðjudagur, september 05, 2006

Edinborg

Jæja þá er maður kominn til útlandanna. Það er rosalega skrýtið að koma aftur á stað sem maður hefur búið á áður. Maður þekkir allt en samt ekki.

Við fengum algjört sjokk þegar við komum inní íbúðina. Hún var ÓGEÐ! Fólkið sem var á undan okkur hafði bara leigt hana yfir festivalið og hafði greinilega aldrei nennt að þrífa neitt. Hún angaði af þunnum karlmönnum og sængurnar voru orðnar gular. Eftir að hafa kyngt gubbinu drifum við okkur útí búð að kaupa nýjar sængur og hreinsiefni og eyddum fyrsta deginum okkar í að þrífa allt hátt og lágt. Eftir stórhreingerninguna kom í ljós þessi líka frábæra íbúð á besta stað í bænum sem við erum alsæl með. Atvinnuleit gengur ekkert alltof vel, sem gæti stafað að einhverju leiti af því að ég hef ekki sótt um neina vinnu en það horfir allt til betri vegar um leið og internetið lætur sjá sig heima.

Sambýlingar mínir stungu af til Slóveníu þannig að núna er ég ein og yfirgefin. Sem þýðir það að ég ráfa um borgina að degi til og spila tölvuleiki full á kvöldin. Bráðum fer ég að borða kakkalakka.

Ég endurtek að allir gestir eru velkomnir. Það er nóg pláss!




Stofan mín



Herbergið mitt áður en ég kom mér fyrir